15. desember 2025
19. nóvember 2025
Vísitala leiguverðs hækkaði um 1,12 prósent í október 2025
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Vísitala leiguverðs mældist 126,4 stig og hækkaði um 1,12 prósent milli mánaða
- Hægt hefur á hækkun vísitölu leiguverðs síðustu mánuði og nam 12 mánaða hækkun hennar 6,67 prósentum í október
- Markaðsleiga hækkaði um 2,26 prósent að raunvirði á ársgrundvelli í október, samanborið við 3,15 prósenta raunverðshækkun í september
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 126,4 stig og hækkaði um 1,12 prósent á milli mánaða í október. Á síðastliðnum 12 mánuðum hefur vísitalan hækkað um 6,67 prósent á sama tíma og verðbólga mældist 4,3 prósent og vísitala íbúðaverðs hækkaði um 3,9 prósent. Leiguverð hefur því hækkað um 2,26 prósent að raunvirði undanfarið ár og árstakturinn minnkar á milli mánaða.
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Á meðfylgjandi mynd má sjá mánaðarlega breytingu á vísitölu leiguverðs ásamt gildum hennar síðustu 12 mánuði.
Vísitala leiguverðs byggir á vegnu meðaltali leiguverðs á fermetra hjá hefðbundnum íbúðum í eigu einstaklinga og hagnaðardrifinna leigufélaga. Niðurstöður eru vegnar saman með veltu íbúða með sama herbergjafjölda á síðustu 12 mánuðum. Stuðst er við leigusamninga síðastliðinna tveggja mánaða við útreikning vísitölunnar, svo októbergildi hennar tekur mið af leigusamningum í september og október.
Nánar má lesa um útreikning vísitölunnar hér.
Leiguverðsjá sýnir einnig hækkun á milli mánaða í október
Hægt er að nálgast upplýsingar um leigusamninga í leiguverðsjá HMS, þar sem leigusalar og leigjendur geta nálgast upplýsingar um markaðsverð íbúða og fjölda leigusamninga í hverjum mánuði.
Fermetraverð markaðsleigu á höfuðborgarsvæðinu miðað við 60-90 fermetra leiguhúsnæði í herbergjaflokkum tveggja til fjögurra herbergja var að meðaltali 3.691 kr. í ágúst og september og 3.739 kr. í september og október. Fermetraverð markaðsleigu á ofangreindum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hækkaði þar með um 1,30 prósent milli mánaða. Hafa ber þó í huga að leiguverðsjáin sýnir ekki leiguverð einstakra samninga, einungis meðaltöl. Jafnframt miðast leiguverðsjá við upphafsdag leigusamninga en vísitalan er reiknuð miðað við verðdag þeirra.
Verðþrýstingur á leiguverði hefur minnkað á þessu ári
Hækkun á vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu er þó hóflegri en í fyrra. Á milli októbermánaða 2025 og 2024 hækkaði markaðsleiga á höfuðborgarsvæðinu um 6,67% og um 2,26% að raunvirði. Á sama tímabili í fyrra, þ.e. milli októbermánaða 2024 og 2023, hækkaði vísitalan meira, eða um 11,16% að nafnvirði og 5,80% að raunvirði. Það má því segja að verðþrýstingur á leigumarkaði sé mun minni í ár samanborið við í fyrra.
Mælaborð fyrir vísitölur HMS
Mælaborð fyrir vísitölur HMS um íbúða- og leiguverð er aðgengilegt á vef HMS. Þar er hægt að nálgast þróun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu, auk þess er hægt að nálgast eldri og sameinaðar vísitölur leiguverðs. Tilgangur leiguvísitölunnar er að endurspegla þróun á markaðsvirði leigu en vísitalan er ekki ætluð til vísitölubindingar á leigusamningum.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS





