7. janúar 2026

Opnað fyrir umsóknir um hlutdeildarlán fyrir janúar

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Umsóknarfrestur er til og með 16. janúar og eru 458 m.kr. til úthlutunar
  • Lánshlutföll, tekjuviðmið og hámarksverð hækka og heimilt verður að leggja fram allt að 10% eigið fé án skerðingar
  • Greiðslubyrði má nema allt að 45% af ráðstöfunartekjum fyrir einstaklinga

HMS hefur opnað fyrir umsóknir um hlutdeildarlán vegna úthlutunar í janúar með rýmkuðum skilyrðum. Umsóknarfrestur er til og með 20. janúar og eru 458 milljónir króna til úthlutunar. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið má finna á Ísland.is.

Í desember síðastliðnum voru breytingar á reglum um hlutdeildarlán samþykktar á Alþingi, sem ætlað er að auka möguleika fyrir tekjulægri fyrstu kaupendur að komast inn á fasteignamarkaðinn. Breytingarnar hafa það að markmiði að festa hlutdeildarlán í sessi og tryggja fyrirsjáanleika um úrræðið gagnvart bæði lántökum og byggingaraðilum.

Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og eru ætluð fyrstu kaupendum, sem og þeim sem ekki hafa átt fasteign síðustu fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Markmið lánanna er að aðstoða fyrstu kaupendur við að komast inn á húsnæðismarkaðinn með því að brúa bilið við fasteignakaup.

Láns­hlut­fall hækk­ar

Breytingarnar fela í sér að lánshlutfall hlutdeildarlána hækkar úr 20% í 25% af kaupverði fyrir almenn hlutdeildarlán, en úr 30% í 35% af kaupverði fyrir umsækjendur með tekjur undir lægri tekjuviðmiðum.

Allt að 10% eig­ið fé án skerð­ing­ar á hlut­deild­ar­láni

Hlutdeildarlánþegum verður jafnframt heimilt að leggja til allt að 10% eigið fé til kaupanna án þess að hlutdeildarlán skerðist á móti, til að hvetja til aukins sparnaðar og minnka þörf á lántöku. Áður skertist hlutdeildarlán ef eigið fé var umfram 5% af kaupverði.

Greiðslu­byrð­ar­hlut­fall ein­stak­linga hækk­ar

Hámark greiðslubyrðar af íbúðalánum í hlutfalli við ráðstöfunartekjur hækkar úr 40% í 45% fyrir einstaklinga. Hámarkið verður áfram 40% fyrir hjón og sambúðarfólk.

Tekju­mörk hækka

Tekjumörk hlutdeildarlána hækka einnig, bæði fyrir einstaklinga og hjón/sambúðarfólk. Uppfærð tekjumörk má sjá í töflunum hér að neðan.

Fyrir hvert barn á heimilinu undir 20 ára aldri hækka tekjumörkin um 2.254.000 kr.

Há­marks­verð íbúða hækka

Hámarksverð íbúða sem falla undir hlutdeildarlán hafa einnig verið hækkuð til að fjölga íbúðum sem uppfylla skilyrði lánveitinga. Hámarksverð íbúða eru mismunandi eftir landsvæðum, stærðum íbúða og fjölda svefnherbergja. Ítarlegri upplýsingar um ný hámarksverð má finna á Ísland.is.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS