19. desember 2025
19. desember 2025
Óhagnaðardrifin leiga hefur lækkað að raunvirði
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Litlar breytingar hafa verið á meðaltali markaðsleigu að raunvirði milli ára en óhagnaðardrifin leiga hefur lækkað
- Dreifing leiguverðs hefur þrengst og bilið milli markaðsleigu og óhagnaðardrifinnar leigu hefur breikkað
- Biðlistar eftir íbúðum utan markaðsleigu eru álíka langir og árin 2023 og 2024
Leiga sem ekki er talin til markaðsleigu hefur ekki haldið í við verðbólgu á síðastliðnu ári, á meðan litlar breytingar hafa orðið á meðaltali markaðsleigu á föstu verðlagi. Bilið á milli markaðsleigu og óhagnaðardrifinnar leigu hefur því breikkað, á sama tíma og biðlistar eftir leiguíbúðum utan markaðsleigu eru langir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýútgefinni mánaðarskýrslu HMS fyrir desember, sem nálgast má með því að smella hér.
Lítil breyting á meðaltali markaðsleigu á föstu verðlagi
Á mynd hér að neðan má sjá dreifingu leiguverðs á föstu verðlagi eftir því hvort samningarnir teljist til markaðsleigu eða ekki árin 2024 og 2025. Líkt og myndin sýnir er lítil breyting á meðaltali markaðsleigu á milli ára, ef tekið er tillit til verðbólgu. Hins vegar hefur dreifingin þrengst, þannig að minni munur er á milli dýrra og ódýrra leigusamninga en áður.
Meðaltal óhagnaðardrifinnar leigu hefur aftur á móti lækkað að raunvirði, þar sem slíkir leigusamningar hafa ekki hækkað í takt við verðbólgu. Sömuleiðis hefur dreifingin þrengst, þannig að flestir samningar eru á þrengra verðbili en áður.
Hægt er að nálgast leiguverð eftir staðsetningu, stærð og aldri íbúða í hverjum mánuði í leiguverðsjá HMS. Þar má einnig sjá mun á markaðsleigu og óhagnaðardrifinni leigu, sem og leiguverð eftir því hvort samningar séu tímabundnir eða ekki.
Biðlistar eftir leiguíbúðum utan markaðsleigu langir
Finna má upplýsingar um biðlista eftir leiguíbúðum utan markaðsleigu í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga, sem HMS heldur utan um. Samkvæmt húsnæðisáætlunum fyrir árið 2025 voru tæplega 7 þúsund umsækjendur á biðlista eftir leiguíbúðum utan markaðsleigu, en biðlistarnir voru álíka langir árin 2024 og 2023.
Á mynd hér að ofan má sjá biðlista eftir leiguíbúðum utan markaðsleigu. Lengstu biðlistarnir eru eftir almennum leiguíbúðum fyrir tekju- og eignalága, en einnig eru langir biðlistar eftir félagslegum íbúðum á vegum sveitarfélaga og námsmannaíbúðum.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




