31. desember 2025

Nýtt fasteignamat tekur gildi: Áætlað heildarvirði er 17,3 billjónir króna

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Nýtt fasteignamat fyrir árið 2026 tekur gildi í dag. Samkvæmt nýju fasteignamati er áætlað heildarvirði fasteigna á Íslandi 17.300 milljarðar króna, og hækkar um 9,2% frá fyrra mati.

Fasteignamat hækkar meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu milli ára og áætlað virði sérbýla hækkar meira en áætlað virði íbúða í fjölbýli. Fasteignamat atvinnueigna hækkar talsvert minna en mat annarra fasteigna, en fasteignamat sumarhúsa hækkar álíka mikið og mat sérbýlisíbúða. HMS kynnti fasteignamat fyrir árið 2026 á opnum fundi í lok maímánaðar á þessu ári, en nálgast má upptöku af fundinum með því að smella hér.

Hægt er að fletta upp nýju fasteignamati fyrir einstaka fasteignir á vefnum hms.is/fasteignaskra. Frestur til að gera athugasemd við nýja fasteignamatið rann endanlega út í gær, 30. desember.

Fast­eigna­mat á að gefa raun­hæfa mynd af mark­aðsvirði fast­eigna

Fasteignamati er ætlað að endurspegla markaðsvirði fasteigna, en fasteignamat ársins 2026 miðast við verðlag í febrúar 2025. Allar reikniaðferðir að baki fasteignamati 2026 eru útskýrðar í skýrslu sem hægt er að nálgast með því að smella á hnappinn hér að neðan.

Fasteignamatsskýrsla 2026

Fasteignamatið er mikilvægt fyrir annars vegar fjármálastofnanir, sem líta til þess við lánveitingar til íbúðakaupa, og hins vegar fyrir sveitarfélög, sem miða gjaldtöku sína við það. Algengt er að fasteignagjöld séu í kringum 10 til 20 prósent af árlegum skatttekjum sveitarfélaga.

Hækkun fasteignamats hefur mismikil áhrif eftir búsetu þar sem álagningarhlutfall fasteignagjalda er mishátt eftir sveitarfélögum. Þó er vert að nefna að hærra fasteignamat þýðir ekki endilega hærri fasteignagjöld sem eigandi þarf að greiða þar sem sveitarfélög geta breytt álagningarhlutfalli sínu milli ára.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS