15. janúar 2026

Húsfyllir á málþingi um aðlögun að loftslagsbreytingum

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Húsfyllir var á málþingi um aðlögun að loftslagsbreytingum sem Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, boðaði til í Norræna húsinu 13. janúar. Fjöldi fólks fylgdist jafnframt með málþinginu í streymi.

Í ávarpi sínu sagði Jóhann Páll það tímamót að aðlögun að loftslagsbreytingum hefði nú verið sett í skýran og markvissan farveg sem lykilþátt í öryggi og viðnámsþrótti íslensks samfélags. Fyrsta aðlögunaráætlun íslenskra stjórnvalda var gefin út í lok síðasta árs.

„Með þessari fyrstu aðlögunaráætlun erum við að stíga nauðsynlegt skref inn í nýjan veruleika. Veruleika þar sem loftslagsmál snúast ekki aðeins um losun heldur einnig um það hvort innviðir standist álag, hvort heimili séu varin og hvort samfélagið haldi virkni þegar á reynir,“ sagði ráðherrann.

Hann benti jafnframt á að áhrif loftslagsbreytinga á atvinnulíf væru bæði víðtæk og ólík milli greina og að árangursrík aðlögun yrði að byggja á traustum gögnum. „Í þessari fyrstu aðlögunaráætlun er lögð áhersla á að byggja upp þann þekkingargrunn sem þarf til góðra aðlögunaraðgerða til framtíðar,“ sagði Jóhann Páll og lagði áherslu á að Ísland væri ekki í skjóli fyrir áhrifum loftslagsbreytinga frekar en önnur ríki.

„Við verðum að aðlaga samfélagið að þeim breytingum sem þegar eru hafnar og vísindin gefa til kynna að séu fram undan, án þess þó að draga úr metnaði þegar kemur að samdrætti í losun. Þetta tvennt verður að fara saman. Markmið aðlögunaráætlunarinnar er skýrt: að efla viðnámsþrótt og öryggi íslensks samfélags.“

Horft til lofts­lags­breyt­inga við hönn­un mann­virkja og vega

Hildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands, fjallaði í erindi sínu um hvernig breytt loftslag auki áhættu vegna náttúruvár, tíðni og umfangs öfgakenndra veðuratburða, hækkandi sjávarstöðu og hopunar jökla. Hún greindi frá því að árið 2025 hefði verið hlýjasta ár hér á landi frá upphafi mælinga og að hitamet desembermánaðar hefði fallið. Þá hafi hitabylgjan í maí verið óvenjuleg, bæði vegna tímasetningar, lengdar og víðtækra áhrifa. Að sögn Hildigunnar hafi loftslagsbreytingar valdið því að líkur á hitabylgjum séu nú um 40% meiri en áður.

Elín Þórólfsdóttir, teymisstjóri starfsumhverfis mannvirkjagerðar hjá HMS, lagði áherslu á mikilvægi þess að aðlaga mannvirki að breyttu loftslagi, þar sem loftslagsbreytingar breyti grundvallarforsendum fyrir hönnun, staðsetningu og endingu mannvirkja. Þá sagði Páll Valdimar Kolka Jónsson, verkefnisstjóri umhverfismála hjá Vegagerðinni, að loftslagsbreytingar væru þegar orðnar hluti af hönnunarforsendum stofnunarinnar. Breyttar aðstæður gætu haft áhrif á vegi landsins, meðal annars vegna flóðahættu á lágsvæðum, rofs vegna ágangs sjávar og aukinnar hættu á skriðuföllum í bröttum hlíðum.

Á málþinginu kom fram að mikilvægt væri að horfa til mögulegra framtíðarsviðsmynda loftslagsbreytinga við uppbyggingu samfélagsins. Aðlögun að loftslagsbreytingum væri ekki einungis verkefni stjórnvalda heldur hugarfar sem samfélagið allt þyrfti að tileinka sér á komandi árum og áratugum. Aðlögunaráætlunin væri ætlað að vera vettvangur til að tryggja samhæfingu og ramma utan um þetta umfangsmikla verkefni.

Líf­leg­ar pall­borðsum­ræð­ur

Elín Björk Jónasdóttir stýrði pallborðsumræðum þar sem sátu Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála hjá Brim, Finnur Ricart Andrason, sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Aðalheiður Snæbjarnardóttir, forstöðumaður sjálfbærni hjá Landsbankanum, og Jóhanna Gísladóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Líflegar umræður sköpuðust með spurningum úr sal. Þar var meðal annars rætt um tækifæri til samlegðaráhrifa milli atvinnustefnu og nýútgefinna stefna um líffræðilega fjölbreytni, sem og mikilvægi gagnaöflunar og rannsókna til að styðja við ákvarðanatöku og áhættumat til lengri og skemmri tíma.

Aðlögunaráætlun stjórnvalda vegna loftslagsbreytinga er aðgengileg á vef stjórnvalda um loftslagsmál, CO2.is.

Fréttin er tekin af vef Stjórnarráðsins

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS