19. desember 2025
19. desember 2025
Hlutdeildarlán fest í sessi - rýmri leið fyrir tekjulægri fyrstu kaupendur
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
- Lánshlutföll, tekjuviðmið og hámarksverð hækka
- Greiðslubyrði má nema allt að 45 prósent af ráðstöfunartekjum fyrir einstaklinga
- Heimilt að greiða út hlutdeildarlán á fyrri stigum framkvæmda til að stuðla að uppbyggingu íbúða fyrir fyrstu kaupendur
Frumvarp um breytingar á reglum um hlutdeildarlán var samþykkt á Alþingi í gær, þann 18. desember. Hlutdeildarlán eru vaxta- og afborgunarlaus lán frá ríkinu fyrir hluta af verði fyrstu fasteignar. Breytingarnar hafa það að markmiði að festa hlutdeildarlán í sessi og tryggja fyrirsjáanleika um úrræðið gagnvart lántökum og byggingaraðilum.
Reglulegar úthlutanir og hærri lánshlutföll
Með breytingunum verða fjárframlög til hlutdeildarlána aukin og lánunum verður úthlutað í hverjum mánuði, en ekki óreglulega líkt og verið hefur. Þar að auki munu breytingar á skilyrðum hlutdeildarlána stuðla að því að fleiri eigi þess kost að nýta þau til fyrstu kaupa.
Breytingarnar fela í sér að lánshlutfall hlutdeildarlána hækkar úr 20 í 25 prósent fyrir almenn hlutdeildarlán, en úr 30 í 35 prósent fyrir umsækjendur með tekjur undir lægri tekjuviðmiðum. Hlutdeildarlánþegum verður jafnframt heimilt að leggja til allt að 10 prósent eigið fé til kaupanna án þess að hlutdeildarlán skerðist á móti, til að hvetja til aukins sparnaðar og minnka þörf á lántöku. Áður skertist hlutdeildarlán ef eigið fé var umfram 5 prósent af kaupverði.
Hámarksverð og tekjuviðmið hækkuð
Samhliða verða gerðar breytingar á tekjuviðmiðum sem hækka fyrir bæði einstaklinga og sambúðarfólk. Þá hækkar hámark greiðslubyrðar af íbúðalánum í hlutfalli við ráðstöfunartekjur úr 40 í 45 prósent fyrir einstaklinga, en verður áfram óbreytt í 40 prósentum fyrir hjón og sambúðarfólk.
Hámarksverð íbúða sem falla undir hlutdeildarlán verða einnig hækkuð til að fjölga íbúðum sem uppfylla skilyrði lánveitinga. Enn fremur verður HMS gert heimilt að gera samninga við uppbyggingaraðila í því skyni að koma verkefnum af stað og fjölga íbúðum með viðráðanlegan húsnæðiskostnað. Slíkir samningar veita heimild til útgreiðslu hlutdeildarlána á fyrri stigum framkvæmda.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS




