8. janúar 2026

Færri íbúðir í byggingu en fyrir ári síðan

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Íbúðir í byggingu eru um 11% færri en þær voru fyrir ári síðan
  • 63% íbúða í byggingu eru á höfuðborgarsvæðinu
  • Álíka margar íbúðir urðu fullbúnar á árinu 2025 og á síðustu fimm árum

Samkvæmt mælaborði íbúða í byggingu eru nú skráðar 5.900 íbúðir í byggingu víðsvegar um landið og hefur fjöldi þeirra haldist stöðugur frá síðasta mánuði en þó eru þær um 11% færri en fyrir ári síðan. Íbúðauppbygging hélt dampi í fyrra þrátt fyrir hægari sölu og hátt vaxtastig, en yfir þrjú þúsund nýjar íbúðir urðu fullbúnar á síðasta ári samkvæmt mælaborði um fullbúnar íbúðir, sem er í samræmi við fyrri ár.

Hlut­falls­lega mik­il upp­bygg­ing á Suð­ur­landi

Fjöldi íbúða í byggingu hefur haldist nokkuð stöðugur á milli mánaða, en líkt og HMS greindi frá voru 5.950 íbúðir í byggingu í byrjun desembermánaðar. Íbúðir í byggingu voru þó um 6.600 í byrjun síðasta árs.

Af þeim íbúðum sem eru í byggingu eru 63% staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, 17% á Suðurlandi og 7% á Suðurnesjum. Til samanburðar eru 62% fullbúinna íbúða staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, á meðan 9% þeirra eru staðsettar á Suðurlandi og 7% þeirra eru staðsettar á Suðurnesjum, samkvæmt mælaborði um fjölda íbúða og sumarhúsa. Íbúðauppbygging á ofangreindum svæðum er því hlutfallslega mest á Suðurlandi.

Byggingaráform telja 1.110 talsins en þau vísa til íbúða sem þegar hafa fengið útgefið byggingarleyfi, en þar sem framkvæmdir eru enn óhafnar. Það þýðir að verkefnið hefur fengið úthlutað lóð, hönnun er lokið og aðaluppdrættir hafa verið samþykktir af sveitarfélaginu.

Mælaborð íbúða í byggingu í janúar 2026

Fjölg­un full­bú­inna íbúða er í takt við með­al­tal síð­ustu ára

Á árinu sem var að líða urðu 3.371 íbúðir fullbúnar, sem er um 8% færri en á árinu 2024 þegar 3.665 íbúðir voru fullbúnar. Hægt er að nálgast upplýsingar um fullbúnar íbúðir eftir mánuðum og sveitarfélögum í mælaborði um fullbúnar íbúðir.

Þrátt fyrir þennan samdrátt er fjölgun fullbúinna íbúða áfram mikil í sögulegu samhengi. Sé horft til síðustu fimm ára hefur fullbúnum íbúðum að meðaltali fjölgað um 3.315 á ári sem undirstrikar að íbúðauppbygging hefur haldið dampi þrátt fyrir hægari sölu og hátt vaxtastig.

Fullbúnar íbúðir á hverju ári 2006-2026

Um 60% íbúða sem urðu fullbúnar á árinu 2025 eru á höfuðborgarsvæðinu og voru flestar þeirra staðsettar í Reykjavíkurborg eða 732 talsins. Í Hafnarfjarðarkaupstað urðu 579 íbúðir fullbúnar og 398 í Garðabæ. Utan höfuðborgarsvæðisins urðu flestar íbúðir fullbúnar á Suðurlandi (14%) og Suðurnesjum (11%), en þar voru flestar íbúðirnar í Reykjanesbæ (242 íbúðir) og Sveitarfélaginu Árborg (178 íbúðir).

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS