Húsnæði fyrir alla

Átak stjórnvalda í húsnæðismálum í tengslum við lífskjarasamningana.

Í apríl 2019 kynnti ríkisstjórnin að unnið skyldi að innleiðingu fjörutíu og fjögurra tillagna um bætta stöðu húsnæðismarkaðar. Var sú ákvörðun hluti af aðgerðum stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. 

Í kjölfarið var sett á fót verkefnið Húsnæði fyrir alla þar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS – áður Íbúðalánasjóður) var falið að fara með eftirfylgni með húsnæðistillögunum. Verkefni skyldi unnið í samráði við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem mynduðu bakhjarla HMS við eftirfylgnina. 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu var falin eftirfylgni með fjórum tillögum en hér er fjallað um þær 40 tillögur sem HMS var falið að fylgja eftir.  

Innleiðingu að stærstum hluta lokið

Almenna íbúðakerfið eflt til muna 

  • 6 milljarða kr. viðbótarframlag í stofnframlög til uppbyggingar almennum íbúðum – stuðlar að auknu framboði hagkvæmra íbúða til leigu fyrir tekju- og eignalægri
  • Tekjumörk inn í almenna íbúðakerfið endurskoðuð – aukið húsnæðisöryggi fyrir stærri hóp leigjenda sem nú hafa aðgengi að almenna íbúðakerfinu.
  • Stærri hluti stofnframlags getur nú komið fyrr til útgreiðslu – lækkar kostnað á byggingartíma og stuðlar þar með að hagkvæmari byggingum
  • Sérstakt byggðaframlag til uppbyggingar á landsbyggðinni – dregur úr misvægi eftir staðsetningu

Einföldun regluverks byggingarmála eykur skilvirkni, styttir byggingartíma og byggingarkostnað og eftirlit einfaldara og markvissara

  • Flokkun mannvirkja eftir stærð, vandastigi, fyrirhugaðri notkun og samfélagslegu mikilvægi lögfest og útfærsla í reglugerð á lokastigum
  • Felld niður faggildingarkrafa byggingarfulltrúarembætta og heimild til útvistunar yfirferð séruppdrátta vegna vandasamra eða umfangsmikilla framkvæmda – réttaróvissu eytt
  • Rafræn málsmeðferð gerð að meginreglu, rafrænar undirskriftir og rafræn gagnaskil, byggingargátt HMS

Uppbyggingu samgönguinnviða hraðað

  • Framkvæmdum við fyrsta áfanga Borgarlínu og á stofnbrautum flýtt – styður við hagkvæmni búsetu sem metin er með hliðsjón af íbúðaverði, aðgengi að hagkvæmum og skilvirkum almenningssamgöngum, atvinnu og skólasókn og öryggi samgöngumannvirkja  

Leiguvernd

  • Fyrirhugað frumvarp um skráningarskyldu leigusamninga á yfirstandandi löggjafaraþingi
  • Staða Neytendasamtakanna sem hagsmunasamtaka leigjenda styrkt
  • Aukin fræðsla á vegum HMS og Neytendasamtakanna um réttarstöðu leigjenda á mörgum tungumálum

Ríkislóðir

  • Betri samgöngur ohf. tók við eignarhaldi á Keldnalandi og borgarstjórn samþykkt að hefja skipulagningu landsins m.a. með uppbyggingu hagkvæmra íbúða í huga

Samræming upplýsinga og skilgreininga á húsnæðismarkaði

  • Byggingargátt HMS komin í notkun – kemur til með að veita rauntíma upplýsinga um framvindu bygginga og einfalda byggingareftirlit þegar bætt hefur verið úr öflun gagna og betri tengingu við fasteignaskrá
  • Húsnæðisáætlanir reynst sveitarfélögum sem gott stjórntæki og ákveðið að stíga næsta skref með einföldun og stafrænni útgáfu
  • Sameiginlegt átak ríkis, sveitarfélaga, slökkviliðs og launþegahreyfingarinnar um ítarlega kortlagningu óleyfisbúsetu – grunnur að stefnumótun til að takast á við vandann

Hlutdeildarlán

  • Hlutdeildarlán til stuðnings ungu tekjulágu fólki til fyrstu kaupa komin til framkvæmda
  • Frumvarp fyrir Alþingi sem heimilar fyrstu kaupendum að nýta tilgreinda séreign til íbúðakaupa
  • Ráðstöfun séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis framlengd