9. apríl 2024

Hátt í þrjú þúsund íbúðir í notkun með aðstoð stofnframlaga

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

  • Heildarfjöldi íbúða sem teknar hafa verið í notkun með aðstoð stofnframlaga frá árinu 2016 jafngildir 11 prósentum af fjölgun íbúða á sama tímabili.
  • 71 íbúð hefur verið úthlutað stofnframlögum og verið teknar í notkun á Vestfjörðum frá 2016, sem jafngildir 41 prósent af íbúðafjölgun á svæðinu á tímabilinu.
  • Langflestar íbúðir sem hafa fengið stofnframlög eru á höfuðborgarsvæðinu.

Alls eru 2.643 nýjar leiguíbúðir komnar í notkun af þeim 3.486 íbúðum sem hafa fengið stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum á síðustu átta árum. Til samanburðar fjölgaði íbúðum í landinu um 24 þúsund á sama tímabili. Langflestar íbúðanna, eða um 2.227 þeirra, eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.

Skipting íbúða sem teknar hafa verið í notkun utan höfuðborgarsvæðisins má sjá á mynd hér að neðan. Líkt og myndin sýnir eru flestar þeirra á Suðurnesjum, en þar eru 80 íbúðir sem teknar hafa verið í notkun með hjálp stofnframlaga.

Skipt­ing íbúða utan höfu­borg­ar­svæð­is sem hafa ver­ið tekn­ar í notk­un með hjálp stofn­fram­laga

Ef úthlutun stofnframlaga er borin saman við fjölgun íbúða, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá sést hins vegar að hún er hlutfallslega mikil á Vestfjörðum. Þar hefur 71 íbúð fengið úthlutað stofnframlögum og verið teknar í notkun frá árinu 2016, en íbúðum þar hefur fjölgað um 174 á sama tímabili. Alls jafngildir heildarfjöldi íbúða sem teknar hafa verið í notkun með aðstoð stofnframlaga 11 prósentum af íbúðafjölgun á landinu frá árinu 2016.

Þús­und íbúð­ir á ári næstu fjög­ur árin

Líkt og HMS hefur áður greint frá voru 4,7 milljörðum króna úthlutað á síðasta ári í stofnframlögum frá ríkinu til uppbyggingar 400 íbúða. Alls hafa stofnframlögin verið notuð í uppbyggingu eða kaup á 3.486 íbúðum frá því að þau tóku gildi á seinni hluta árs 2016. Heildarfjárhæð stofnframlaga ríkisins er um 24 milljarðar króna.

Í júní 2023 tilkynnti ríkisstjórnin uppbyggingu 1.000 íbúða á þessu ári og næsta ári með hjálp stofnframlaga sem liður í aðgerðum hennar gegn verðbólgu. Í mars síðastliðnum tilkynnti svo ríkisstjórnin að hún myndi einnig styðja við uppbyggingu 2.000 íbúða á árunum 2026-2027, en sú tilkynning var liður í aðgerðum hennar til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum. Ríkisstjórnin hyggst verja 7-9 milljörðum króna úr ríkissjóði á hverju ári í stofnframlög næstu fjögur árin.

Um stofn­fram­lög

Stofnframlög eru stuðningur í formi eigin fjár sem veittur er til bygginga og kaupa á almennum íbúðum, annars vegar fyrir hönd ríkisins í gegnum HMS og hins vegar frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem íbúðirnar koma til með að vera staðsettar í.

Markmiðið með stofnframlögum er að fjölga hagkvæmum leiguíbúðum með viðráðanlegan húsnæðiskostnað og bæta húsnæðisöryggi tekju- og eignaminni heimila. Húsnæðiskostnaður á að vera í samræmi við greiðslugetu og að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS