11. nóvember 2021

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir nóvember

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Mikill eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði mældist í september 

  • Mikill eftirspurnarþrýstingur á íbúðamarkaði mældist í september 
  • Hlutfall íbúða sem seljast á yfirverði hækkar á ný eftir lækkun síðustu mánuði
  • Meðalsölutími með því lægsta sem mælst hefur
  • Árshækkun leiguverðs heldur áfram að aukast
  • Áfram mikil sókn í fasta óverðtryggða vexti

Kaupsamningum fjölgar örlítið á milli mánaða eftir minnkun síðustu mánuði

Eftir merki um minnkandi eftirspurnarþrýsting, sem greint var frá í síðustu mánaðarskýrslu, jukust umsvif á fasteignamarkaði lítillega í september frá fyrri mánuði. Umsvif eiga það til að aukast á haustin en ef leiðrétt er fyrir árstíðarsveiflum var um fækkun samninga að ræða. Þar sem um þinglýsta samninga með útgáfudag í september er að ræða, getur fjöldinn hins vegar aukist lítillega þegar fleiri samningum með útgáfudag í september hefur verið þinglýst. Miðað við tólf mánaða breytingu er um 35% samdrátt að ræða miðað við september í fyrra en þrátt fyrir það eru umsvif meiri en á sama tíma á meðalári. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var fjöldinn á pari við metið í september frá því í fyrra og annars staðar á landinu er fjöldinn rétt undir metinu í september frá því í fyrra.

 

Enn dregur úr fjölda íbúða sem auglýstar eru til sölu

Í byrjun nóvember voru aðeins um 1.320 íbúðir auglýstar til sölu á landinu öllu en til samanburðar voru þær yfir 1.400 í byrjun septembermánaðar og nærri 4.000 þegar mest var í lok maí 2020. Þar af eru um 640 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu en þær voru um 680 í byrjun september og 2.200 í maí 2020. Á undanförnum mánuðum hefur íbúðum í fjölbýli haldið áfram að fækka hratt en fjöldi sérbýla hefur verið að sveiflast á milli 150 og 230. Á landsbyggðinni hefur íbúðum til sölu í fjölbýli fækkað hratt undanfarna mánuði. Ef horft er á ársbreytingu á framboði íbúða þá hefur íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 61,4% en á landsbyggðinni hefur þeim fækkað um 65,6%. Framboð af sérbýlum hefur dregist saman um 22,5% á höfuðborgarsvæðinu, en 44,7% á landsbyggðinni.

Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hækkar á ný eftir lækkun síðustu mánuði

Athygli vekur að hlutfall íbúða sem seljast á yfirverði hækkar á ný í september eftir lækkun mánuðina á undan. Á höfuðborgarsvæðinu seldust 40,7% íbúða yfir ásettu verði, en svo hátt hefur hlutfallið ekki mælst áður. Miðað við 3 mánaða meðaltal seldust sérbýli í 38% tilfella yfir ásettu verði en íbúðir í fjölbýli í um 36% tilfella. Á landsbyggðinni í heild, fyrir utan höfuðborgarsvæðið, seldust sérbýli í um 22% tilfella yfir ásettu verði, en íbúðir í fjölbýli í um 17% tilfella. Á sama tíma styttist meðalsölutíminn og mælist um 38,7 dagar á höfuðborgarsvæðinu sem er nálægt því lægsta sem mælst hefur. Tíminn er mældur frá því að auglýsing er birt og þar til samningur er undirritaður. Telja má að hann verði vart skemmri og hann mælist á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir vegna þess tíma sem tekur að fjármagna íbúðakaup.

 

 

Áfram skarpar verðhækkanir

Þessi mikla umframeftirspurn hefur leitt til þess að fasteignaverð heldur áfram að hækka skarpt. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,4% á milli mánaða samkvæmt vísitölu HMS fyrir söluverð. Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu nam 15,5% í september og hækkaði úr 14,8% í ágúst. Mest mældist tólf mánaða hækkunin á Suðurnesjum eða 21,7% og þar á eftir á Vestfjörðum 18,0%. Fasteignaverð hefur hins vegar hækkað langminnst á Norðausturlandi eða um 2% á síðustu 12 mánuðum. Sé miðað við vísitölu HMS fyrir pöruð viðskipti hækkar fasteignaverð enn meira.

 

 

Árshækkun leiguverðs heldur áfram að aukast

Árshækkun leiguverðs að nafnvirði tekur vel við sér á höfuðborgarsvæðinu, miðað við 12 mánaða breytingu á vísitölu HMS fyrir leiguverð. Samkvæmt vísitölunni hækkar leiguverð um 0,9% á milli mánaða en hækkunartakturinn miðað við 12 mánaða breytingu fer úr 1,2% í 3,1%. Frá febrúarmánuði á þessu ári hefur leiguverð hækkað um 5,2% á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt vísitölunni sem miðar við verð í þinglýstum samningum. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins lækkar hækkunartakturinn en eykst töluvert annar staðar á landsbyggðinni.

Áfram mikil sókn í fasta óverðtryggða vexti

Sókn í fasta vexti heldur áfram þar sem hrein ný útlán innlánsstofnana á föstum óverðtryggðum vöxtum  námu rúmum 20 milljörðum króna á móti um 9 milljörðum á breytilegum vöxtum. Þetta gerir  um 47% aukningu á hreinum nýjum óverðtryggðum útlánum á föstum vöxtum á milli mánaða. Aukin sókn í fasta vexti endurspeglar væntingar lántaka til töluverðrar hækkunar vaxta næstu þrjú árin.

 

 

Mánaðarskýrsluna í heild sinni má nálgast hér:

https://hms.is/media/11166/hms_manadarskyrsla_november21.pdf

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur HMS, í síma 693-9339

 

 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Netfang

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS