12. desember 2025
26. janúar 2021
Fyrsta samstarfsþing HMS og Sambands íslenskra sveitarfélaga
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS
Stefnt að nánara samstarfi ríkis og sveitarfélaga í húsnæðismálum
Stefnt að nánara samstarfi ríkis og sveitarfélaga í húsnæðismálum
- Opinberir aðilar á sveitarstjórnarstiginu og hjá ríkisvaldinu hafa lýst áhuga á að vinna nánar saman og geta þannig brugðist hraðar við þörfum almennings í húsnæðismálum
- Sveitarstjórnarmenn og embættismenn sem koma að húsnæðismálum sveitarfélaga munu á samstarfsþinginu ræða húsnæðismál við fulltrúa HMS og ráðuneytis húsnæðismála
- Á samstarfsþinginu verður einnig rætt um stjórnsýslu mannvirkjamála en átak er nú í gangi til að samræma betur byggingareftirlit á milli sveitarfélaga og á landsvísu
- Forstjóri HMS: „Á mannamáli þá erum við að fara tala um hvað þurfi að gera og hvernig eigi að framkvæmda það og við höfum haft það á orði í undirbúningsvinnunni að opni umræðufundurinn á morgun verði líklega fjölmennasti húsfundur Íslandssögunnar“
- Samstarfsþingið hefst kl.10 en árlegt húsnæðisþing HMS og félagsmálaráðuneytisins fer fram síðar um daginn og er opið öllum
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og Samband íslenskra sveitarfélaga standa á morgun fyrir fyrsta samstarfsþingi þessara aðila og fer það fram í gegnum fjarfundarkerfið Zoom. Yfir 100 eru skráðir til þátttöku á þinginu. Til þingsins eru boðaðir allir þeir kjörnu fulltrúar, nefndarmenn og embættismenn sem mesta aðkomu hafa að húsnæðismálum af hálfu sveitarfélaga. Á samstarfsþinginu er gert ráð fyrir að sveitarstjórnarmenn og fulltrúar HMS og ráðuneytis ræði opinskátt um húsnæðimál frá öllum hliðum. Umræðurnar verða innlegg í samstarfsáætlun HMS og Sambandsins sem kynnt verður í kjölfarið.
Tilgangurinn með boðun samstarfsþingsins og útgáfu samstarfsáætlunarinnar er að tryggja að opinberir aðilar geti brugðist hraðar við þörfum almennings í húsnæðismálum og að sveitarfélögin hafi aukna aðkomu á fyrstu stigum stefnumótunar í húsnæðismálum. Á samstarfsþinginu verður einnig rætt um stjórnsýslu mannvirkjamála en sérstakt átak er nú í gangi til að samræma betur byggingareftirlit á milli sveitarfélaga og á landsvísu.
Opinn umræðufundur og beint samtal um forgangsröðun
Samstarfsþingið hefst kl.10 og er skipt í tvennt. Á fyrri hluta þingsins geta þinggestir valið á milli tveggja málstofa en í seinni hlutanum fer fram opinn umræðufundur allra þátttakenda á þinginu sem Ásmundur Einar Daðason, fjölskyldu- og barnamálaráðherra, mun sitja. Markmiðið með fundinum er að stuðla að beinu samtali sveitarstjórnarmanna og annarra sem koma að húsnæðismálum á sveitarstjórnarstiginu við stjórnendur og sérfræðinga HMS auk ráðherra og fulltrúa viðeigandi ráðuneyta.
---
Hermann Jónasson, forstjóri HMS: „Sveitarfélögin eru leiðandi aðili í húsnæðismálum og bera meðal annars ábyrgð á skipulagsmálum, byggingareftirliti, stefnumörkun og áætlanagerð. Sveitarfélögin þekkja sömuleiðis einna best til þarfa ólíkra hópa í húsnæðismálum og er vel kunnugt um helstu áskoranir sem bygginga- og hönnunaraðilar eru að kljást við hverju sinni. HMS er sú stofnun sem ber ábyrgð á mótun og framkvæmd húsnæðisstefnu á landsvísu og við viljum eiga nánara samstarf við sveitarfélögin um forgangsröðun verkefna og umbætur í þessum mikilvæga málaflokki. Samvinna og gagnkvæmur skilningur þessara aðila á markmiðum og framkvæmd stefnumörkunar er lykilatriði til að mæta þörfum landsmanna á sviði húsnæðis. Til að orða þetta á mannamáli þá erum við að fara tala um hvað þurfi að gera og hvernig eigi að framkvæmda það, sem eru líka hefðbundin verkefni hjá húsfélögum fjölbýlishúsa og við höfum haft það á orði í undirbúningsvinnunni að opni umræðufundurinn á morgun verði líklega fjölmennasti húsfundur Íslandssögunnar.“---
Eftir hádegi fer fram árlegt húsnæðisþing HMS og félagsmálaráðuneytisins. Húsnæðisþingið er öllum opið og stendur yfir frá kl. 13-15. Hægt er að horfa á það hér.
Útgáfuáætlun
Hér má sjá útgáfuáætlun HMS



