Brunamálaskólinn

Brunamálaskólinn hefur verið starfræktur frá árinu 1994. Rekstur hans fellur undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun en hlutverk skólans er að veita slökkviliðsmönnum og eldvarnaeftirlitsmönnum um allt land þá menntun, starfsþjálfun og endurmenntun sem nauðsynleg er vegna starfa þeirra.

Dagskrá vorannar 2024 (birt með fyrirvara um breytingar)


Endurskipulagning skólans er enn í fullum gangi og tekur skipulag skólans og námskeiðshald mið af því.
 
Frá síðastliðnu hausti hefur grunnnám verið keyrt eftir nýrri námskrá með tilraunahópi frá fjórum slökkviliðum. Sá hópur líkur því námi nú á vorönn, með tveggja vikna verklegri lotu og lokafærnimati. Sú framkvæmd mun skila mikilvægu innleggi í mótun námskrár sem stefnt er að hefja formlega kennslu eftir næstkomandi haust. 

Fyrir núverandi nemendur á eldra kerfi 

Nemendur Brunamálaskólans sem hófu nám samkvæmt skipulagi eldri reglugerðar um Brunamálaskólann, hafa tækifæri til að ljúka þeirri vegferð innan gefins tímaramma. Á þetta við þá einstaklinga sem þegar hafa lokið við námskeið 1, bóklegan og veklegan hluta. Gert er ráð fyrir að þetta fyrirkomulag verði í gildi til 30. maí 2025. Eftir þá dagsetningu ættu öll námskeið skólans að vera samkvæmt gildandi reglugerð.

Fyrir nýliða í slökkviliðum 

Nám fyrir slökkviliðsmenn í Brunamálaskólanum er bundið við ráðningarsamband við slökkvilið. Nú á vormánuðum er stefnt að gera aðgengilegt stafrænt námsefni fyrir nýliða. Efnistök námsefnis snúa að nauðsynlegri grunnþekkingu sem nýliðum ber að tileinka sér og snúa að starfsemi slökkviliða, þeirra hlutverki og öryggi sem slökkviliðsmenn, ásamt grunnþáttum í lögbundnum verkefnum slökkviliða. Samhliða verður slökkviliðstjórum og öðrum leiðbeinandi aðilum innan slökkviliða veitt aðgengi að leiðbeiningum um verklega framkvæmd þjálfunar tengdri bóklega námsefninu. Uppsetning viðeigandi æfinga verður því einfölduð og samræmd fyrir leiðbeinendur innan slökkviliðanna. 

Námskeið vorannar 2024 

Skipulagðir námskeiðsþættir á vorönn eru áframhald þeirra námskeiða sem hófust í haust, skráning í þau námskeið er því lokuð.
Til að auðvelda skipulag eru hér þó kynntar dagsetningar sem liggja fyrir.  

Þjálf­un­ar­búð­ir og loka­færni­mat grunn­náms (Til­rauna­hóp­ur) 
  • 11. – 22. mars, verkleg lota og lokafærnimat á Akureyri 
  • 8. – 19. apríl, verkleg lota og lokafærnimat á höfuðborgarsvæðinu  
Fag­nám­skeið í frammi­stöðusál­fræði (Seinni hluti) 
  • 13.02.24 – 14.02.24 Staðnám (Þátttakendum hefur verið send staðsetning námskeiðs) 

Önnur námskeið 

Verkleg námskeið samkvæmt eldri reglugerð fyrir útkallslið eru haldin víðsvegar um landið í samráði við slökkviliðsstjóra á staðnum og nærliggjandi svæða. Beiðnir slökkviliðsstjóra um slík námskeið skal senda á brunamalaskolinn@hms.is  
 
Ef önnur námskeið verða sett á dagskrá vorannar, að því leiðarljósi að hraða framgangi endurskipulagningar skólans verður skráning og skipulag auglýst tímanlega. 

Samstarfsyfirlýsing menntastofnanna viðbragðsaðila

Þann 29. mars sl. undirrituðu fulltrúar Brunamálaskólans, Björgunarskóla Landsbjargar, og Sjúkraflutningaskólans yfirlýsingu um samstarf sem ætlað er að efla þjálfun og menntun  viðbragðsaðila á Íslandi. Reglulega koma upp tilfelli sem gera kröfu á skilvirkt samstarf á vettvangi, þekking á skipulagi og hlutverki hvers og eins er lykilþáttur í að tryggja farsæla úrlausn verkefna. Er samstarfinu ætlað að efla tengsl og styrkja kerfi neyðar- og viðbragðsþjónustu á Íslandi til framtíðar.

Frá undirskrift hafa verið haldnir þrír fundir og fleiri samstarfsaðilar bæst við sem fjölgar spennandi tækifærum sem skapast geta með samstarfinu. Með betri nýtingu auðlinda ætti að vera hægt að framleiða gæða kennsluefni og standa fyrir metnaðarfullri verklega þjálfun sem ætti að gera námið eftirsóknarvert og þar með aukið líkur á að nemendur njóti sín og tileinki sér viðeigandi þekkingu, leikni og hæfni sem þeir þurfa að búa yfir. Í haust er búið að skipuleggja vinnudag þar sem markmið er að ramma inn fyrstu verkþætti samstarfsins og útvíkka formlega samstarfið.

Leiðarljósið er að greina og vinna með þá þætti sem skila ávinningi fyrir og styrkja mikilvæga innviði neyðar- og viðbragðsþjónustu á Íslandi öllum til heilla.

Samstarfsyfirlýsing

Mark­mið Bruna­mála­skól­ans

Markmið skólans er að vera öflugur, nútímalegur skóli sem veitir slökkviliðs- og eldvarnaeftirlitsmönnum vandaða menntun. Námið fer fram með fjarkennslu auk hefðbundinnar kennslu sem felst einkum í námskeiðum sem haldin eru víða um land.

Reglugerð um Brunamálaskólann má finna hér

Reglugerð um reykköfun má finna hér