10
feb.

Mánaðarskýrsla hagdeildar HMS fyrir febrúar 2021

Velta á fasteignamarkaði í methæðum árið 2020

Nú þegar tölur um þinglýsta kaupsamninga um íbúðarhúsnæði fyrir allt árið 2020 liggja fyrir kemur í ljós að þeir voru um 14% fleiri en árið 2019 og aðeins árið 2007 slær þeim fjölda við. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og annars staðar á landsbyggðinni var hins vegar um metár að ræða. Þinglýstir kaupsamningar árið 2020 voru 12.072 talsins á meðan þeir voru 12.650 árið 2007. Hins vegar ef litið er á veltuna á fasteignamarkaði þá var veltan meiri á árinu 2020 en árið 2007 og því um metár í veltu að ræða. Velta á íbúðamarkaði, þ.e. heildarupphæðir söluverðs í öllum stökum íbúðaviðskiptum, nam ríflega 600 ma.kr. á síðasta ári sem er nærri 19% meira en árið 2019 á föstu verðlagi og 6% meira en árið 2007.

Líkt og hefur komið fram áður í mánaðarskýrslum hagdeildar þá virðist fjöldi kaupsamninga hafa náð hámarki í september í fyrra og verið á niðurleið síðan þá og hefur fjöldinn í desember ekki verið minni síðan í júní, en þó er fjöldinn mikill miðað við árstíma. Þá bendir skammtímavísir hagdeildar til þess að janúar hafi verið umsvifameiri en desember og því gæti verið um árstíðabundna sveiflu að ræða. Það virðist enn þá vera töluverður þrýstingur á fasteignamarkaði þar sem framboðið er takmarkað, sölutími styttist um fimm daga milli mánaða og hefur aldrei verið lægri og verð heldur áfram að hækka.

Lántaka landsmanna virðist vera að dragast saman

Það dró verulega úr lántökum landsmanna í desember og gæti það verið vísbending um að lánamarkaðurinn sé að róast eftir að hafa verið á miklu flugi á seinni hluta ársins. Árið 2020 var metár í flestu er kemur að lántöku og aldrei hefur jafn mikið verið lánað út og á því ári. Hrein ný útlán, það er ný lán að frádregnum uppgreiðslum, námu 232 ma.kr. og hefur slík útlánafjárhæð ekki sést áður. Nú eru vísbendingar uppi um að fasteignamarkaðurinn sé farinn að róast og hafi náð hámarki á haustmánuðum. Hlutdeild óverðtryggðra lána heldur þó áfram að aukast og hækkaði um eitt prósentustig milli mánaða og mældist 42% í desember. Hlutdeildin jókst um 14,5 prósentustig á árinu og fór úr 27,5% upp í 42% og hefur aldrei mælst hærri.

Árshækkun vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu áfram neikvæðTólf mánaða breyting vísitölu HMS fyrir leiguverð á höfuðborgarsvæðinu mældist neikvæð þriðja mánuðinn í röð og nam -1,5% í desember og stendur vísitalan í stað á milli mánaða. Vísitalan er á sama stað og hún mældist um sumarið 2019, en það sama má segja um bæði vísitöluna fyrir nágrenni höfuðborgarsvæðisins og annars staðar á landsbyggðinni.

 

 

Myndir úr skýrslunni má nálgast hér - SVG

Myndir úr skýrslunni má nálgast hér - PNG

Getum við aðstoðað?

Getum við aðstoðað?

Hringdu og fáðu beint samband við þjónustufulltrúa í síma 440 6400 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið hms@hms.is

Opnunartími þjónustuvers
Mánudaga til fimmtudag: 09:00 - 16:00
Föstudaga frá kl: 09:00 - 14:00

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Borgartúni 21, 105 Rvk
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki
kt. 581219-1480