21. mars 2024

Litlar leiguíbúðir með hæsta fermetraverðið eru miðsvæðis í Reykjavík

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS

Almennt er hærra fermetraverð á minni íbúðum vegna minnkandi jaðarnytja og hentugleika íbúða eftir því sem þær stækka. Eins eru oft minni íbúðir til leigu dýrari sökum góðrar staðsetningar s.s. nálægð við miðbæ borga eða háskólasamfélaga. Þá er dýr­ara fyr­ir verk­taka að byggja smærri íbúðir sökum hás fasts kostnaðar s.s. lóðaverðs sem leiðir til hærra leiguverðs á minni íbúðum.

Gögn úr nýrri leiguskrá HMS sýna mun á fermetraverði lítilla leiguíbúða, sem eru minni en 80 fm. og innihalda að jafnaði tvö eða færri herbergi, og stærri leiguíbúða, sem eru stærri en 80 fm. og innihalda að jafnaði þrjú eða fleiri herbergi.

Fermetraverð lítilla leiguíbúða er hæst í póstnúmerum sem eru miðsvæðis í Reykjavík. Um leið er meðalleigufjárhæð einna lægst miðsvæðis í Reykjavík s.s. í póstnúmerum 107 en þar má finna minnstu íbúðirnar. Myndin hér að neðan er unnin upp úr leiguskrá HMS en skráin telur rúmlega 20 þúsund leigusamninga og ætlað er að það sé um 60% af öllum leigumarkaðnum. Framboð lítilla leiguíbúða úr skránni er mest í póstnúmeri 101, en þar eru þær 680 talsins. Í póstnúmeri 105 eru um 450 íbúðir, en þar á eftir eru um 300 íbúðir í póstnúmeri 200 í Kópavogi.  

Líkt og sjá má í mynd hér að neðan er lægsta fermetraverð lítilla leiguíbúða í 103 Reykjavík eða 3.222 kr. Þar á eftir má finna einna lægst fermetraverð þeirra á höfuðborgarsvæðinu í póstnúmerum 220 Hafnarfirði, 113 og 112 Reykjavík og 201 Kópavogi. Flestar stærri leiguíbúðir finnast í póstnúmerum 203 og 201 og þar af leiðandi er úrtak smærri íbúða í þeim póstnúmerum lítið og takmarkað. 

Leigu­verð stærri íbúða fer minna eft­ir stað­setn­ingu

Framboð leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu í leiguskrá HMS nær yfir um 5.800 íbúðir. Af þeim eru rúmlega 2.400, eða 42% þeirra stærri en 80 fm. og flokkast í þessari umfjöllun til stærri leiguíbúða. Flestar stærri íbúðanna eru í Kópavogi og Garðabæ í póstnúmerum 203, 201 og 210 en þar eru um eða yfir tvær af hverjum þremur íbúðum stærri leiguíbúðir. Í úthverfum Reykjavíkur er um og yfir helmingur leiguíbúðanna yfir 80 fm.   

Hæsta fermetraverð stærri íbúða er rétt rúmlega 3.000 kr. og má finna í póstnúmerum 102 og 103 en framboð stærri íbúða þar er takmarkað samanborið við miðbæ Reykjavíkur (póstnúmerum 107/101). Lægsta fermetraverðið er í 220 Hafnarfirði, en þar er það tæplega 2.446 kr. sem er 4% lægra fermetraverðið í póstnúmeri 109, sem er ódýrasta póstnúmerið í Reykjavík.  

Framboð stærri leiguíbúða er mest í 200 Kópavogi eða 231 talsins en næstmest í 220 Hafnarfirði og loks í 101 Reykjavík en í fyrrgreindum póstnúmerum eru yfir 200 stærri leiguíbúðir í leiguskrá HMS.   

Líkt og myndin hér að ofan sýnir er breytileikinn í fermetraverði stærri íbúða minni á milli póstnúmera en hjá minni íbúðum. Mismunurinn gefur vísbendingu um að vilji leigjenda stærri íbúða til að búa miðsvæðis sé minni en hjá leigjendum smærri íbúða. 

Póstlisti HMS

Skráðu þig á póstlista HMS og fáðu allar nýjustu fréttir sendar í pósthólfið þitt.

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun HMS